Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Hausthátíð starfsmanna

28.08.2008
Hausthátíð starfsmanna

Fimmtudaginn 28. ágúst ríkti mikill keppnisandi í stofnunum Garðabæjar en þá var blásið til mikillar hausthátíðar meðal starfsmanna. Skólastjóri Sjálandsskóla Helgi Grímsson var fljótur til að skora á aðrar stofnanir og heita sigri Sjálandsskóla í keppnisgreinum hátíðarinnar. Þannig var tóninn gefinn fyrir harða en mjög spennandi keppni í Boccia, skutlukeppni, Lego-kubba keppni, hjólböruboðhlaupi, mínigolfi, pílukastkeppni og naglakeppni (negla nagla í spýtu). Allir voru hvattir til að koma sér upp öflugu og góðu stuðningsmannateymi og flottasta klappliðinu heitið veglegum verðlaunum. Það er skemmst frá því að segja að verðlaunin deildust nokkuð bróðurlega milli stofnanna en Sjálandsskóli sat þó eftir með sárt ennið að þessu sinni með engin verðlaun í farteskinu önnur en ánægjuna af þessari samverustund :-) Er það nú ekki svo lítið.

 

Bæjarstjórinn Gunnar Einarsson fór fyrir sínu fólki á bæjarskrifstofunni og sýndi snilldartaka með golfkylfuna, fór brautina á tveimur höggum.

Lið Hofsstaðaskóla lagði allt undir og tefldi fram sínu harðsnúnast fólki. Slagorð hópsins var: Gott silfur gulli betra. Skólinn landaði sigri í hjólbörukeppninni og skipaði sér svo í annað sætið í flestum öðrum greinum. Var það lykillinn að vaskri framgöngu hópsins sem uppskar heildarsigur úr samanlögðum stigafjölda. Margrét skólastjóri var hrærð eftir sigurinn og hét því að vaka fram eftir nóttu og klippa út orður.


Sigurlið Hofsstaðaskóla

Auk ofangreindra viðurkenninga voru veitt verðlaun fyrir besta klappliðið. Tvö lið báru af hvað varðar búninga og framkomu. Lið Flataskóla mætti fallega appelsínugult með vinylplötur á höfði og vöktu aðdáun flestra í salnum. Flataskóli þurfti þó að játa sig sigraða gagnvart ámóta appelsínugulu og glöðu liði frá leikskólanum Hæðarbóli sem kom geysilega vel undirbúið með sjúkrabörur, sjúkrakassa og tilheyrandi.


Hæðarból kom sá og sigraði með flottasta klappliðið. Lið sem var við öllu búið.

Nálgast má fleiri myndir frá þessum stórviðburði í myndasafni skólans.

Til baka
English
Hafðu samband