Heim Beint á efnisyfirlit síðunnar

Forritunarkennsla í 5. bekk

14.12.2012
Forritunarkennsla í 5. bekk

Nemendur í 5. bekk fá kennslu í forritun skólaárið 2012-2013. Kennsla fer fram í lotum í hringekju. Hver hópur samanstendur af 14- 15 nemendum sem fá kennslu einu sinni í viku, alls 7 vikur, 70 mínútur í senn. Kennari er Rakel Sölvadóttir og hefur hún sér til fulltingis aðstoðarmann, Ólínu Helgu sem er nemandi í 7. bekk skólans. Um þróunarverkefni er að ræða sem unnið er í samstarfi við fyrirtækið Skema. 
Þróunarverkefnið gengur út á innleiðingu á kennslu í forritun inn í almenna kennslu í grunnskólum. Samhliða er unnið að stórri rannsókn sem Skema vinnur að í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Markmið rannsóknarinnar er að skoða þau áhrif sem kennsla í forritun hefur á hugræna getu og líðan grunnskólabarna. Rannsókn þessi mun veita mikilvæga innsýn í nýja kennsluhætti sem mögulega geta bætt hugræna getu og líðan. 
Verkefnið hefur farið vel af stað. Nemendur hafa verið mjög áhugasamir og duglegir og þeir hafa látið vel af kennslunni. Hægt er að sjá nokkur af þeim verkefnum sem fyrstu hóparnir hafa lokið hér. 

Í lok hvers námskeiðs er lögð könnun fyrir bæði nemendur og foreldra þar sem spurt er um viðhorf þeirra til forritunarkennslunnar. Viðbrögðin hafa verið mjög jákvæð eins og sjá má í eftirfarandi tilvitnunum.

"Dóttur minni finnst þetta skemmtilegasta fagið í skólanum þessa önnina og segist ætla að verða forritari þegar hún verður stór. Það segir allt sem segja þarf. Ég er mjög ánægð með þetta framtak og vona að forritun verði kennd öllum grunnskólanemendum í framtíðinni."


"Mér finnst þetta alveg frábært framtak, börn eru svo móttækileg fyrir öllu á þessum aldrei og fljót að læra og þetta er klárlega framtíðin. Það var alltaf tilhlökkun fyrir hvern tíma og hefði þetta gjarnan mátt halda áfram lengur :)."

"Við vorum mjög ánægð með þessa kennslu og vildum gjarnan að henni yrði haldið áfram, yrði jafnvel hluti af aðalnámsskrá fyrir grunnskólabörn."


Sjá myndir úr kennslunni á myndasíðu 5. bekkja


Myndir með frétt

Til baka
English
Hafðu samband